Innskráning með samfélagsmiðli

Mercedes-Benz W116 280S - 450SEL árgerðir 1972-80 

350SE árgerð 1979 .

Forverarnir voru W108 og W109 .

Fyrsti W116 bíllinn sem kom til Íslands var svona á litinn.

450SEL 6,9 árgerð 1975

Mælaborð í 450SEL 6,9 árgerð 1975

Vélarsalur í 450SEL 6,9 árgerð 1975

Hinn nýlega hannaði W116 sem var ný kynslóð af toppklassa gerðum frá Mercedes-Benz var fyrst kynntur almenningi í september árið 1972. Þessi nýi bill var opinberlega kynntur sem S-klassa bíll og leysti af hólmi W108/W109 týpurnar.


Í fyrstu var um þrjár gerðir í boði og voru þær 280S, 280SE og 350 SE sem var með V-8 vél. Hálfu ári seinna kom svo á markaðinn SEL sem í fyrstu var eingöngu boðinn með V-8 4,5 lítra vélinni en frá og með nóvember 1973 var 3,5 lítra vélin í boði líka í lengri gerðinni. Í lok apríl 1974 var einnig hægt að fá 2,8 litra vélina í SEL gerðinni sem var 100 mm lengri á milli hjóla heldur en S og SE  og bauð upp á meira fótapláss fyrir aftursætisfarþega.



Með tilkomu W116 var nú hætt að hafa bensintankinn aftast undir skottinu en í staðinn var hann settur yfir afturöxulinn sem þótti mun öruggara í aftanákeyrslum en á móti minnkaði ummál skottsins. Einnig kom svampklætt mælaborð, klofinn gírskiptir og fjögurra arma stýrishjól sem var einnig svampklætt öryggisins vegna. En mestu skipti þó að þessi bíll var sá fyrsti í röðum bíla frá Mercedes-Benz sem var hannaður sérstaklega með öryggið í fyrirrúmi m.a. mun öruggara farþegarými, stífari topp, hurðir og dyrastafir. Einnig var sú nýbreytni að nú náðu stefnuljós að framan og aftan út til hliðana og einnig urðu afturljósin stærri og nú með riffluðu yfirborði til að betra sæist á þau þó þau væru drullug.


Í maí 1975 var svo 450 SEL með 6,9 lítra V-8 vél kynntur sem gildur arftaki 300 SEL 6,3 lítra bílsins sem var í framleiðslu W109. Þessi vél var 286 hestöfl en 6,3 vélin var 301 hestafl. Þessi bill kom með loftpúðafjöðrun sem fyrst var notuð í rútum frá Mercedes-Benz en einnig voru samlæsingar, loftkæling og þvottakerfi á framljósum staðlaður búnaður. Líkt og forveri hans þá seldist 450 SEL 6,9 mjög vel þrátt fyrir að hann kostaði tvöfalt meira heldur en 350 SE. Þessi gerð var í framleiðslu í fjögur og hálft ár og voru framleiddir 7380 bílar.


Frá nóvember 1975 til febrúar 1976 urðu ýmsar endurhannanir á eldsneytiskerfinu á 2,8, 3,5 og 4,5 lítra vélunum með beinni innspýtingu til að koma til móts við strangari útblástursreglur í flestum öðrum löndum Evrópu.

Bosch”D-Jetronic” innspýtingunni var skipt út og í stað hennar kom nýlega hönnuð Bosch”K-Jetronic”. Einnig var vélunum breytt á margan hátt. Þjappan í 2,8 og 3,5 lítra vélunum með innspýtingum  var minnkuð og V-8 vélarnar fengu rafmagnskveikju og vökvaundirlyftur. Þjappan í 2,8 lítra vélinni með blöndung var einnig lækkuð en varð þá aflminni en í apríl 1978 var henni breytt aftur til fyrra horfs.


Í maí 1978 kom svo ný gerð af W116 á markaðinn. Þetta var 300SD bill sem var með diesel vél með túrbínu sem var hugsaður aðallega fyrir Bandaríkjamarkað. Líkt og aðrar gerðir Mercedes-Benz þá fékk þessi bíll góðar viðtökur í sölu. Þetta var jafnframt fyrsti S-klassa bíllinn í sögu fyrirtækisins sem var knúinn diesel vél.

Þetta sama ár kom fram endurhannað ABS bremsukerfi sem var þróað í samstarfi við Robert-Bosch GmbH. Þetta endurhannaða kerfi gerði ökumanninum kleift að beygja bifreiðinni um leið og staðið var á bremsum og var þetta fyrst boðið í W116 SEL bílunum.


Arftaki þessa fyrsta S-klassa bíls var kynntur í Frankfurt í September 1979 undir framleiðsluheitinu W126. Þrátt fyrir þessa breytingu var W116 í framleiðslu til September 1980. Alls voru framleiddir 473.035 bílar af þessari gerð.


Greinarhöfundur: Sigurbjörn Helgason.

Ljósmyndasafn W116