Innskráning með samfélagsmiðli

Mercedes-Benz W123 200-300D árgerðir 1975-1985

200 árgerð 1982

Forverarnir hétu W114 og W115

Vélarsalur í 250 bíl.

Gott umhverfi er fyrir ökumann og farþega í W123 bílunum.

230E var einna vinsælasta útgáfan í einkaeigu hér á landi. Margir eiga góðar mynningar um svona bíla.

M102 vél í 230E bíl.

T123 (T = Turing). Fyrsti slíki bíllinn var smíðaður 1977

Flugvallaleigubíll og venjulegur W123

Tveggja dyra útgáfur af fólksbílum frá Mercedes-Benz höfðu fram að þessu ekki verið algengir á meðal hinna fjögra dyra. Þetta er 230CE árg. 1982.

 

 


 
 

 

Árið 1975 litu fyrstu W123 bílarnir dagsins ljós og það aðeins örfá eintök, flestir 280 og 280E, til sýninga á hinum nýja bíl, sem fara átti í sölu í janúar 1976. Fyrirrennararnir W115 og W114 höfðu verið teknir og hannaðir upp í nýju boddýi. Hinn nýji 123 bíll átti margt sameiginlegt með forvera sínum en var samt einstakur og öðruvísi en sá gamli.


 

Útlitið var eins og alltaf nýjung og breyting á fjöðrunarkerfi að framan var mikil. Nú hafði Mercedes-Benz skilið við hina svokölluðu klafafjöðrun að framan sem var svo algeng í bílum áður fyrr. Þeir höfðu hannað sitt eigið fjöðrunarkerfi sem gaf bílnum betri stöðugleika og rásfestu.

 

 

Í fyrstu var vélbúnaður 123 bílanna nánast sá sami eða svipaður og í 115 og 114. Bílarnir hétu áfram mörgum af sömu týpuheitum og áður. Enn var til 200 bíll, 230 bíll, 250 og 280. Driflína og afturfjöðrun var sú sama, enda til hvers að breyta því sem var gott bara breytingana vegna. Þessi áframhaldandi framleiðsla á því sem reynst hafði með miklum ágætum í forverunum gerði þessa bíla áræðanlega sem og hagkvæma í rekstri og viðhaldi. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að 123 bíllinn sé besti og áreiðanlegasti Mercedes-Benz fólksbíll sem hafi verið smíðaður fyrr og síðar. Við erum kannski ekki tilbúnir til að taka svo sterklega til orða en höldum því samt staðfastlega fram að 123 bíllinn sé góður bíll.


 

Þeir urðu fljótt vinsælir og fljótlega varð vinum okkar í Sturlugörðum það ljóst að þessi bíll myndi slá út á stuttum tíma vinsældir þess gamla. Framúrskarandi hönnum og framsýni í útliti var eithvað sem fólk vildi kaupa og ekki spillti aksturseiginleiki og gott umhverfi fyrir ökumann og farþega fyrir vinsældum þessa bíls. Helsta nýjungin sem borin var á borð fyrir kaupendur Mercedes-Benz bíla var sú ákvörðun Benzmanna að hefja nú loks framleiðslu sjálfir á skutbíl (station) og fékk hann boddýheitið T123 (T = Turing). Fyrsti slíki bíllinn var smíðaður 1977 og samkvæmt heimildum bara eitt eintak af 300TD bíl til kynningar. Þrátt fyrir þessa róttæku breytingu á framleiðsluferli voru T bílarnir aðeins 7,5 % af heildarframleiðslu 123 bílanna og þeirra sjaldgæfastur er 230T (blöndungsbíll), en aðeins 6884 eintök voru framleidd af þeirri gerð.

Um mitt framleiðslutímabilið eða árið 1980 tóku að koma nýjar vélar í 4ra strokka útgáfur W123 bílanna. Mikil vinna hafði verið lögð í að hanna alveg nýja vél frá grunni, enda þær vélar sem fram að þeim tíma höfðu verið í boði svolítið orðin börn síns tíma með gamalli hönnun. Afraksturinn varð hin nýja M102 vél sem bæði var til í 1997 og 2299 rúmsentimetra útgáfum, sú minni með blöndung en hin með beinni innsprautun eldsneytis. Bílarnir með þessum vélum hétu 200 og 230E. Þessir mótorar áttu síðar eftir að sjást í 190 bílnum, W201, og arftaka þessa bíls, W124.

 

 

Eins og svo oft áður í sögu Mercedes-Benz voru til ýmsar útgáfur af 123 bílum eins og öðrum Mercedes-Benz bílum. Flugvallataxinn sem fyrst hafði sést sem Heckflosse bíll af 110 gerð varð líka til sem 123 bíll og líklega kominn til að vera um ókomna tíð. Tveggja dyra útgáfur af millistærðabílum frá Mercedes-Benz höfðu fram að þessu ekki verið algengir á meðal hinna fjögra dyra. Vinsældir slíkra bíla jukust með tilkomu tveggja hurða 123 bíla, en þrátt fyrir mjög mikla aukningu á vinsældum þá náði framleiðslan ekki nema um 3,7 % af heildarframleiðslu 123 bílanna.

Heildarframleiðsla W123 bílanna náði 2.666.864 eintökum.

W123 bílarnir eru:

200 árgerðir 1976 til 1985

200D árgerðir 1976 til 1985

200T árgerðir 1980 til 1986

220D árgerðir 1976 til 1979

230 árgerðir 1976 til 1981

230C árgerðir 1977 til 1980

230CE árgerðir 1980 til 1985

230E árgerðir 1979 til 1985

230T árgerðir 1978 til 1980

230TE árgerðir 1980 til 1986

240D árgerðir 1976 til 1985

240TD árgerðir 1978 til 1985

250 árgerðir 1976 til 1985

250T árgerð 1978 til 1982

280 árgerðir 1976 til 1981

280C árgerðir 1977 til 1980

280CE árgerð 1977 til 1985

280E árgerð 1976 til 1985

280TE árgerð 1978 til 1986

300CD árgerð 1977 til 1985

300D árgerðir 1976 til 1985

300TD árgerðir 1978 til 1985

 

Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson