Eins og getið var í umfjöllum um W 120 bílana var hann kallaður Ponton bíllinn sem var upphaf nýrrar kynslóðar bíla frá Mercedes-Benz. Ponton bílar frá Mercedes eru þeir fyrstu sem komu á markað með algerlega sjálfberandi yfirbyggingu og krumpugrind til að mýkja högg við árekstur. Eitthvað sem menn kannski halda að sé ekki svo gömul uppfinning.
Ponton er þýskt heiti á sjálfberandi brú. Það þótt því viðeigandi að gefa þessari nýju hönnum á bíl þetta vinnuheiti. Síðan hefur þetta fest sig í sessi sem heiti á þessari gerð Mercedes-Benz bíla og eru þeir kallaðir þessu nafni um allan heim og eigendur þessara bíla kalla þá yfirleitt ekki annað en "Pontoninn sinn"
Fyrstu bílarnir af hinum eiginlegu Ponton bílum sem litu dagsins ljós voru af gerðinni 300 (W186) en bílar af gerðinni 220 voru miðstærðar bílarnir sem framleiddir voru í þessum svokallaða Ponton flokki. 300 bíllinn var fyrst kynntur til sögunnar árið 1951 en minnsti bróðirinn 180 var fyrst sýndur almenningi snemma á árinu 1953 Smíði og sala 220 bílanna hófst hinsvega ekki fyrr en í mars 1954 þegar búið var að framleiða yfir tíu þúsund 180 bíla.
Tilvitnun í greinina um W120 lokið.
Ponton bílar af gerðinni W180 hét í fyrstu 220a og var beinn arftaki W187, en samhliða kynningu á nýrri útgáfu af 4 strokka Ponton árið 1956 sem hlotið hafði nafnið 190 (W 121) voru gerðar nokkrar breytingar á 220 bílnum líka, aðallega á vélbúnaði og lítillega í útliti, og hét hann eftir það 220S. Á þessum tímamótum leit einnig dagsins ljós einstök útgáfa sem var einskonar blanda af hinum nýja 190 bíl og 220a bílnum. Þessi nýji bíll hlaut nafnið 219 eða W105. Þessum bíl var ætlað að vera valkostur þeirra sem vildu aflmeiri bíl en 190 bílinn á hagstæðara verði en 220S. Þessi nýji bíll var í raun og veru 190 bíll með lengri framenda til að rúma 6 strokka vél, þá sömu og hafði áður verið í 220a. Í framhaldi af þessu var í maí 1956 kynnt tveggja dyra útgáfa af 220S bílnum með blæju og svo tveggja dyra útgáfa með föstu þaki, svokallaður Coupé, árið 1957.
Árið 1958 urðu nokkur straumhvörf í bílaiðnaðinum þegar Mercedes-Benz setti á markað tvær nýjar vélar sem voru með beinni innsprautun eldsneytis í stað blöndungs. Slíkt hafði verið þá notað til nokkurra ára í keppnisbílum en var nú loks í boði fyrir almennan fólksbílamarkað. W128 eða 220SE eins og hann var betur þekktur var orðinn að veruleika og hin nýja M127 vél sem síðar var notuð í W111 bílum einnig. Þessi vél markaði upphaf að langri og farsælli sögu bensínverksinnsprautunar í bílum Mercedes-Benz, en bensínverkið var mjög svipaður búnaður og olíuverk díselbíla. Þessi frumgerð innsprautunar á eldsneyti var í notkun allt til ársins 1972.
220 Ponton bílarnir voru af mörgum sagðir einir skemmtilegustu bílar í heimi og margir hafa sagt þá sögu að hér hafi farið bíll sem á sínum tíma bar af öðrum bílum varðaði aksturseiginleika. Litlu bræðurnir 180 og 190 voru liprir 4 strokka bílar en þeir þótu afllitlir á köflum og ekki alltaf miklir langkeyrslubíla. Því var öðru nær með 220 bílana. Þeir voru með litlar 6 stokka vélar og fyrir vikið heldur aflmeiri en þeir litlu þrátt fyrir að vera kanski ekki eins miklar rakettur og margur ameríski bensínhákurinn að sögn þeirra sem til þekkja. Þetta voru samt engar tíkur, síður en svo í augum manna sem á sínum tíma eignuðust svona bíla.
Líkt og með minni Ponton bílana eru til nokkrar sérstakar útgáfur af 220 bílum. Enn eru til í heiminum sjaldgæfar gerðir af skutbílum, sjúkrabílum og einnig líkbílum, en þeir síðastnefndu voru á þessum árum oftast yfirbyggðir á mjög dýra og vandaða bíla. Þessir bílar voru ekki frekar en þeir litlu framleiddir af Mercedes-Benz nema að hluta til. Mercedes-Benz skilaði þessum bílum út úr verksmiðjunni hjá sér eins og afsöguðum fólksbílum tilbúnum til yfirbygginga. Það var í flestum tilfellum Binz-Karosserie sem byggði yfir þessa bíla og þess vegna hafa þeir oftast í seinni tíð verið kallaðir Binz en ekki Benz.
W 180 bílarnir eru:
220 og 220S, Sedan
árgerðir 1954 til 1959
og 220S Coupé og Convertible
árgerðir 1956 til 1959
W 105 bílarnir eru:
219, Sedan
árgerðir 1956 til 1959
W 128 bílarnir eru:
220SE Sedan
árgerðir 1958 til 1959
og 220SE Coupé og Convertible
árgerðir 1958 til 1960
Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson
Ljósmyndasafn Ponton
|