Árið 1965 þegar Daimler-Benz verksmiðjurnar kynntu nýju S-línuna, höfðu menn þar á bæ um nokkurt skeið komist upp með það að bjóða ríkari viðskiptavinum sínum upp á fínni gerð bíla sem voru útlitslega mjög svipaðir ódýrari bílum þeirra.

Til þess að bæta úr þessu var hönnuðinn Paul Bracq fenginn til þess að hanna nýja línu dýrari bíla sem fékk nafnið S-línan til aðgreiningar frá þeim ódýrari. Bíllinn var hugsaður sem valkostur fyrir þann hóp viðskiptavina sem ekki höfðu efni á stóra 600 bílnum, en vildu gjarnan aðgreina sig frá almúganum á hinum venjulega Benz. Umræddur Paul Bracq hafði áður sýnt frábæra hæfileika á sviði fallegrar hönnunar með því að teikna sportbíl fyrir verksmiðjurnar sem best er þekktur undir nafninu “Pagoda”. Þessi sami maður hafði einnig áður hannað tveggja dyra útgáfu Heckeflosse bílsins og svipaði hinni nýju S-línu mikið til þess bíls útlitslega séð.

Nýi bíllinn var með klassísku útliti án þeirra tískustrauma sem áður höfðu einkennt Heckeflosse bílinn sem hann leysti nú af hólmi. Toppurinn var lægri, rúðuflöturinn stærri og bíllinn breiðari sem gerði það að verkum að hann virkaði allur dálítið stærri en fyrirrennarinn þó að í raun litlu munaði.

Fyrstu bílarnir voru kynntir í ágúst 1965 og var boðið upp á tvær mismunandi vélarstærðir til að byrja með. Báðar þessar vélar voru 6 strokka og var minni vélin 2.5 lítra og boðin í bílum sem báru heitin 250S og 250SE. Fyrri bíllinn var með tvöfaldan blöndung en sá seinni innspýtingu. Stærri vélin var 3 lítra og hétu bílarnir með þær vélar 300SE og 300SEL.

250SE leysti af hólmi gamla 220SE bílinn og 300SE og 300SEL bílarnir tóku við af gömlu Heckeflosse bílunum sem báru sömu nöfn. Á sama tíma og hin nýja S-línan var kynnt, var kynntur nýr Heckeflosse bíll sem tók við af 220S bílnum og bar hann heitið 230S. Sá bíll var framleiddur í rúm þrjú ár samhliða 108 og 109 bílnum, en var þó aldrei hugsaður sem hluti af S-línunni þó hann bæri sama einkennisstaf.

Höfðingjarnir í Stuttgart flokkuðu 250S, 250SE og 300SE bílinn undir W108 og dýrasta bílinn 300SEL undir W109. Sá síðast nefndi var 10cm lengri en hinir bílarnir og með loftfjöðrun og einnig dálítið meira af krómi. Að öðru leiti voru bílarnir nánast nákvæmlega eins. Til að byrja með héldu verksmiðjurnar því fram þetta “L” stæði fyrir loftfjöðrunina, en það átti eftir að breytast seinna meir og stóð þá stafurinn fyrir það sem flestir héldu fá upphafi, eða lengri bíl.

Árið 1968 var hin svokallaða nýja kynslóð Mercedes-Benz bifreiða kynnt með tilkomu W114/W115 bílsins. Þessir bílar voru í ódýrari enda bílaflóru Daimler-Benz og tóku við af síðustu Heckeflosse bílunum. Samhliða því var hætt að framleiða 250SE og 300SE bílana og ný 2.8 lítra vél (M130) var kynnt til sögunnar. Nýju bílarnir báru heitin 280S, 280SE, 280SEL og 300SEL og voru þeir allir með umræddri vél þó að heiti þess síðastnefnda gæfi annað sterklega til kynna. 250S bíllinn var þó framleiddur samhliða þessum nýju bílum allt fram til ársins 1969. Helsta nýjungin var þessi nýja vél sem skilaði meira afli en jafnframt minni eyðslu. Raunin var síðan sú að þetta urðu síðustu 6 strokka bílarnir í þessari framleiðslulínu og við tóku stærri V8 vélar í anda þess sem tíðkaðist hjá bílaframleiðendum í Bandaríkjunum. Bandaríkjamarkaður þótti mikilvægur og miðaðist tæknileg hönnun þessara bíla töluvert mið kröfur þess markaðar fram til ársins 1972 þegar hætt var að framleiða þessa bíla.

Á þessum tíma fékk tæknimaður hjá Mercedes-Benz að nafni Erich Waxenberger það gæluverkefni að taka vélina sem var í stóra 600 bílnum og koma henni fyrir í 300SEL. Þessi tilraun skilaði í því að hafin var framleiðsla á þessum bíl árið 1968 og bar hann heitið 300SEL 6.3. Bíllinn var algerlega í samræmi við tíðarandann og ætlaður til höfuðs kraftmiklum Bandarískum bílum í sama flokki eins og t.d. Pontiac GTO. Bílagagagnrýnendur um allan heim héldu var vatni yfir bílnum og hlaut hann allstaðar frábæra dóma. Þarna var komin til sögunnar eðalbifreið sem sameinaði þá kosti sem einkenndu þannig bifreiðir og grófra kraftmikilla bíla. Bíllinn var sannkallaður úlfur í sauðargæru því hann var ekki nema 6.5 sek í hundraðið og fór kvartmíluna á 14.25 sek. Lítið gaf samt til kynna hvaða bíll var á ferðinni annað en merkið á skottlokinu.

Tími átta strokka vélanna var greinilega kominn því árið 1969 var hætt að framleiða 300SEL bílinn með 2.8 lítra vélinni og við tók 300SEL 3.5. Í þetta skiptið fannst þeim þó ástæða til að tilgreina vélarstærðina með heitinu. Stuttu seinna eða árið 1970 var þessi sama vél einnig boðin í 280SE 3.5 og 280SEL 3.5. Þessir síðastnefndu bílar voru þó aldrei seldir á Bandaríkjamarkað vegna þess að stuttu áður hafði tekið í gildi ný reglugerð í þar í landi varðandi útblástursmengun sem varð til þess að breyta þurfti vélunum eða stillingu þeirra svo mikið að þær stóðu ekki lengur undir nafni og þóttu ekki boðlegar.

Mótleikur Stuttgart árið 1971 gegn þessari nýju reglugerð var ný og stærri vél sem aðeins var hugsuð fyrir Bandaríkamarkað. Þessi vél var í raun 3.5 lítra vélin sem höfð var með lengri slaglengd og gerðu hana 4.5 lítra. Hún skilaði svipuðu í hestöflum og Evrópska 3.5 lítra vélin, en var mun eyðslufrekari og þar með ópraktískari.

W108/W109 framleiðslulínan var framleidd frá júlí 1965 fram til október 1972, en engu að síður voru nokkrir bílar skráðir 1973 módel í Bandaríkjunum, sjálfsagt vegna þess að þeir voru ekki seldir fyrr en það ár. Alls voru 359.522 framleiddir af W108 gerðinni, en 23.550 af W109 gerðinni eða alls 383.072 bílar í heildina.

Tegund
|
Gerð
|
Vél
|
HP
|
Eintök
|
250S
|
108.012
|
180.920
|
130
|
74.677
|
250SE
|
108.014
|
129.980
|
150
|
55.181
|
300SE
|
108.015
|
189.989
|
170
|
2.737
|
280S
|
108.016
|
130.920
|
140
|
93.666
|
280SE
|
108.018
|
130.980
|
160
|
91.051
|
280SEL
|
108.019
|
130.980
|
160
|
8.250
|
280SE 3.5
|
108.057
|
116.980
|
200
|
11.309
|
280SEL 3.5
|
108.058
|
116.980
|
200
|
951
|
280SE 4.5
|
108.067
|
117.980
|
225
|
13.527
|
280SEL 4.5
|
108.068
|
117.980
|
225
|
8.173
|
300SEL
|
109.015
|
189.988
|
170
|
2.369
|
300SEL
|
109.016
|
130.981
|
160
|
2.519
|
300SEL 3.5
|
109.056
|
116.981
|
200
|
9.583
|
300SEL 4.5
|
109.057
|
117.981
|
225
|
2.553
|
300SEL 6.3
|
109.018
|
100.981
|
300
|
6.526
|
Greinarhöfundur: Sveinn Þorsteinsson
Ljósmyndasafn W108 og W109
|