Innskráning með samfélagsmiðli

Mercedes-Benz W111 og W112 árgerðir 1959-71

Í hönnunardeildinni.

Forverinn var Ponton W180 og W128.

Í felum, en samt ekki alveg falinn.

220 Sb árgerð 1959.

220 b árgerð 1959.

"Afturuggi". 220Sb árgerð 1963.

Fyrstu 220 b bílarnir í framleiðslu. Sjá má nokkra af síðustu Ponton bílunum renna eftir bandinu líka.

Mælaborð í 220 Sb árgerð 1965.

280 SEb Coupe árgerð 1968.

220 SEb Coupe árgerð 1961.

220 Sb árgerð 1963 .

Í sprautun.

 

Það var árið 1956 sem 220S Ponton var fyrst kynntur til sögunnar og var hann arftaki 220a sem framleiddur hafði verið frá 1954. Það var á þessum tímamótum sem yfirmaður hönnunardeildar Mercedes Benz, Hr. Fritz Nallinger fyrirskipaði hönnun á nýjum miðstærðarbíl. Bíll þessi átti að verða arftaki gamla 220 Ponton bílsins og í september árið 1956 var haldinn langur fundur með hinum ýmsu hönnunardeildum til að ræða hinn nýja bíl. Nallinger vildi að hannaður yrði bíll sem hefði svokallað “timeless” útlit með ítölsku ívafi en samt mjög vel þekkjanlegan Mercedes-Benz framenda. Hann lagði mikla áherslu á öryggi og að bíllinn væri hannaður innan frá og út.


Það var ljóst að allar hönnunardeildir þyrftu nú að taka á honum stóra sínum, því ljóst var að hér stæði til að umturna öllu útliti, hönnun og byggingalagi Mercedes-Benz bílanna á einu bretti. Vélahönnunardeild var falið að endurhanna vélbúnað með aukið afl og snerpu í huga. Fjöðrun, stjórnbúnaður og bremsukerfi var eitthvað sem ætlun var að gera umbætur á og að sjálfsögðu var nýrri yfirbyggingu ætlað að verða tímans tákn um aldur og ævi.


Mest allri hönnun hins nýja bíls á teikniborðinu var lokið síðla árs 1957 og fyrstu handsmíðuðu frumeintökin voru tilbúin til reynslu í janúar 1958. Framundan voru um þriggja milljóna kílómetra prufuakstur og það var ljóst að eitthvað þurfti nú að gera til að forðast það að fjölmiðlamenn, og þeirra ljósmyndarar sem í felum lægu kæmust á snoðir um að þessi nýji bíll, sem aldrei hafði sést áður, væri Mercedes-Benz . Allir prufubílarnir voru málaðir dökkgrænir eins og herbílar og öll ljós voru höfð sem frumstæðust og algerlega úr takt við hið rétta útlit. Að lokum var sett eitthvað hringlaga grill sem algerlega var úr fasa við hið vel þekkta Mercedes-Benz grill. Svo mikil var leynd þeirra sem stóðu að prufuakstrinum, að þeir reyndu allt til að villa á sér heimildir og meðal annars notuðu þeir gamla Opel Kapitän bíla til að ferja verkfæri og tækniliða sem unnu við verkefnið.


Að sjálfsögðu grunaði einhverja Mercedes-Benz um græsku í þessum feluleik, en þeir þrættu alla tíð fyrir að vera að hanna nýjan bíl. Í febrúar 1959 töldu þeir hjá Mercedes-Benz sig vera búnir að ná markmiði sínu í hönnun hins nýja bíls og fóru þá fjórir af æðstu hönnuðunum í ökuferð á fjórum lítillega felulegum frumsmíðuðum bílum frá Stuttgart gegnum Alpana til Naples og til baka til að samfærast um að hinn nýji bíll væri tilbúinn til framleiðslu. Breytingar á verksmiðjunni og smíði á stönsum og vélbúnaði til framleiðslunnar hófst í maí 1959 og þrjár mismunandi gerðir af hinum nýja bíll voru formlega kynntar til sögunnar fyrir almenningi á bílasýningunni í Frankfurt um haustið sama ár. 


Á þessum árum þótti þessi bíll einstaklega glæsilegur og fágaður í útliti. Ítölsk hönnun var á þessum árum í hávegum höfð og stíll eins og sá er sést hafði frá Pinin Farina og sett hafði svip sinn á bíla eins og Fiat og Peugeot þótti mjög glæsilegt. Einnig voru gildi eins og þau sem þá tröllriðu amerískum bílaiðnaði, með einhverjum þeim gasalegurstu vængjum sem sést hafa bílum og ofhlaðnir krómi og glingri fyrir augað, eitthvað sem hafði áhrif á bílahönnun þessa tíma. Mercedes Benz þótti hafa farið fágaða leið í þessu öllu saman og komið með bíl sem benti á þessi gildi, en var ekki ofhlaðinn af þeim.


Hinn nýi bíll fékk fljótlega viðurnefnið “Heckflosse” sem er þýska. Orðið er sett saman úr tveim orðum, en “heck” þýðir afturendi og “flosse” þýðir uggi, og mætti því kalla bílinn “Afturugga” á íslensku. Í enskumælandi löndum er hann kallaður “Fintail”. Skýringar Mercedes-Benz manna á uggunum voru að þetta væri fyrir ökumanninn gert til þess að það væri auðveldara fyrir hann að átta sig á stöðu afturendans þegar bílnum væri bakkað og þrættu þeir alla tíð fyrir að þarna væri verið að fylgja tísku í bílahönnun. Það þykir samt flestum lítið til þessara skýringa þeirra koma, og telja menn líklegra að í fyrsta og eina skiptið létu hönnuðir Mercedes-Benz tíðaranda og tísku hafa áhrif á hönnun sína.


Allra fyrstu W111 bílarnir af gerðinni 220, 220S og 220SE tóku strax við af fjögurra dyra sex stokka Ponton bílunum, en voru framleiddir samhliða síðustu 220 tveggja dyra Ponton bílunum sem voru framleiddir til nóvember 1960. Jafnframt hélt framleiðsla á fjögurra strokka Ponton bílum áfram til október 1962, en fyrstu fjögurra strokka Heckflosse bílarnir W110 (190c og 190Dc) komu þó á markað árið 1961.Það sama ár kom svo einnig á markað W112 bíllinn sem var dýrasta gerðinn af Heckflosse bílnum, búinn 3000 rúmsentimetra vél með beinni innsprautun. Sá bíll átti að leysa af hólmi W 189 300d bílinn sem framleiddur hafði verið frá 1957 og svipaði mjög til eldri 300 bílanna frá 1951.


Fyrstu Heckflosse bílarnir voru eingöngu fáanlegir beinskiptir, ýmist þá með venjulega kúplingu eð hina svokölluðu “Hydrack” rafmagnskúplingu sem reyndar varð aldrei eins vinsæl í þessum bíl eins og hún hafði orðið í forveranum Ponton. Ökumenn áttu það nefnilega til að gleyma að sleppa bensíngjöfinni þegar skipt var um gír og það þoldi kúplingin illa og mikið var um bilanir í þessum búnaði fyrir vikið. Haustið 1961 kom svo fyrsta sjálfskiptingin á markað í W111 bílnum og þótti það gefa Mercedes Benz töluvert forskot á aðra evrópska bíla í miðstærðarflokki, en fram að þessum tíma höfðu sjálfskiptingar einungis sést í dýrustu lúxusbílum í Evrópu.


Fyrsti tveggja dyra W111 bíllinn, 220SE Coupé, var formlega kynntur fjölmiðlamönnum í Stuttgart í febrúar 1961 samhliða opnun á nýju Daimler-Benz safni. Það var á þessum tímamótum sem Mercedes-Benz hélt upp á 75 ára tilurð sína og því mætti kalla 220 Coupé bílinn sannkallaða afmælisútgáfu af bíl. Bíllinn var síðan formlega kynntur almenningi mánuði síðar á bílasýningu í Genf. Blæjubíllinn var kynntur nokkrum mánuðum síðar á bílasýningunni í Frankfurt árið 1961.


Tveggja dyra bíllinn sótti útlit sitt að nokkru leiti í fjögurra dyra módelin en hafði þó ýmis fleiri séreinkenni önnur en færri hurðir. Hann var ekki með neina dyrapósta á hurðum og var því svokallaður “hardtop” bíl. Hann var ekki með krómlista milli framljósa og grills, Stuðararnir voru ögn nettari og að aftan gekk hann lengra fram á brettið. Afturuggarnir voru nánast rúnnaðir af, en smá upphækkun á brettaendunum að aftan minnti óneitanlega á upprunann. Einnig kom enginn krómlisti upp frá afturljósunum og upp á brettið eins og á fjögurra dyra bílunum. Toppur bílsins var lægri og engar loftraufar voru gluggapóstinum aftan við hliðarrúðurnar. Það var mikið króm í kringum hliðarglugga og í dyrafölsum og sílsinn á tveggja dyra gerðunum var alþakinn stórum og breiðum krómlista. Mælaborðið er einnig mjög frábrugðið, en í staðin fyrir stóran ferkanntaðan mæli sem stendur upp á endan, samanstendur mælaborðið í tveggja dyra bílunum af tveim kringlóttum mælum með einum litlum ferkönntuðum mæli á milli.

W111 bílar hafa til fjölda ára átt sér stóran hóp aðdáenda og fjöldinn allur af klúbbum og umfjöllunarsíðum er að finna á netinu um þessa bíla. Sitt sýnist þó hverjum um útlit þeirra, einkum þá fjögurra dyra gerðum, og sumum finnst þessir bílar ekki fallegir. Hitt er þó annað mál að eftirspurn eftir þeim hefur aukist og verð á þessum bílum hefur verið að hækka á undanförnum árum erlendis. Það eru því eflaust margir sammála mér með það að þessir bílar séu einstaklega aðlaðandi og klassískir bílar með útlit sem aldrei dettur úr tísku, þrátt fyrir tilhneigingu til að elta tískustrauma þegar hann var upphaflega hannaður.

W 111 bílarnir eru:

220, 220S, 220SE og 230S Sedan

árgerðir 1959 til  1966

og   220SE, 250SE og 280SE Coupé og Convertible

árgerðir 1961 til 1971

 

W 112 bílarnir eru:

 

300SE Sedan og 300SE Coupé og Convertible

árgerðir 1961 til  1967

 

Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson

Ljósmyndasafn Heckflosse