Innskráning með samfélagsmiðli

Mercedes-Benz W114 og W115 árgerðir 1968-1975

250 árgerð 1968.

Forverinn var W110.

Undirvagninn.

Í hönnunardeild.

250CE árgerð 1972 .

Tveggja dyra bílar voru ekki með neina dyrastafi.

220D í Frakklandi.

W114 Flugvallaleigubíll.

Fyrstu bílarnir í verksmiðjunum í Sindelfingen árið 1968.

 

Strig....  hvað? En þannig hvá flestallir þegar maður segir “Strichtacht”.

Þetta yfirbyggingarlag frá Mercedes-Benz fékk þetta furðulega nafn strax í upphafi. Nafnið er ávallt ritað /8 (strich = strik og acht = átta)  og það er á einhvern hátt dregið af fyrstu árgerðinni sem var til af bílnum, eða 1968.

Bílar þessir höfðu það verkefni að taka við af afturugganum, Heckflosse bílnum sem nú var farinn að verða barn síns tíma, enda tíska uggana á bílum löngu orðið úrelt. 

/8 bíllinn var að miklu leiti algerlega ný hönnun og mjög ólíkur smíðinni á forveranum. Mercedes Benz hafði nú sagt skilið við spindilbolta að framan og tekið í notkun spindilkúlur í staðin. Að aftan var um að ræða algerlega nýjan drifbúnað. Í stað svokallaðar klofinnar hásingar var nú kominn drifbúnaður sem samanstóð af drifköggli sem hengður var upp í bita í miðjunni og öxlum út í hjólin sem fest voru í miðjubitann með einskonar lærum eða olbogum. Vélbúnaður bílanna var líka endurnýjaður. Nýjar vélar M115, M114 bensínvélar og OM615 díselvélin litu dagsins ljós og svo síðar M110 og OM617.

 

 

Margir hafa vellt því fyrir sér hver sé í raun munurinn á yfirbyggingu 114 annarsvegar og 115 hinsvegar. Staðreyndin er sú að munurinn er í raun lítill sem enginn. Næstum því eini munurinn var að bílunum var skipt upp eftir strokkafjölda vélanna. W114 bílar voru með sex strokka vélum en W115 voru með fjögura strokka vélum. Undir lokin á framleiðslutíma /8 bílanna kom einnig á markað W115 bíll sem hét 240D 3,0 og var hann með 5 stokka 3000 rúmsentimetra dísilvél, vélinni sem síðar varð svo vel þekkt í 300D W123 bílunum. 

Það hafði alla tíð verið ásetningur vina okkar í Stuttgart að setja á markað tveggja dyra útfærslu af 114 bílnum. Vegna þess hve mikið af breytingum höfðu verið gerðar við hönnun W114 og W115 voru hönnuðir Mercedes-Benz lentir í tímahraki með að koma C114 bílnum á markað í tæka tíð. Svo fór á endanum að tveggja dyra bíllinn var ekki settur á markað fyrr en rúmu ári á eftir hinum bílunum og þá aðeins á heimamarkaði og í öðrum evrópulöndum, að Bretlandi undanskildu. Bretar og Bandaríkjamenn fengu að bíða til haustsins 1969 eftir tveggja dyra bílnum.

 

 

Þrátt fyrir að hjólhaf tveggja dyra bílanna sé það sama og á þeim fjögurra hurða, að þá eru þeir mjög frábrugðnir fjögurra dyra bílnum. Þakið á þeim er um 5 cm lægra og engir eru dyrapóstarnir. Skottlokið er lengra og innanrými þeirra er af þar af leiðandi ekki eins mikið.

 

 

Þessir gerð Mercedes-Benz bíla varð mjög vinsæl og þóttu þetta góðir og traustir bílar. Margir eignuðust svona bíla sem einkabíl og þar á meðal faðir minn sem fullyrti mjög lengi að aldrei hefði verið framleiddur betri Mercedes-Benz.

Mest var framleitt af þessum bílum með dísilvélum og óhemja af þeim var notað í leigubílaakstur víðsvegar um heiminn. Má segja að þetta hafi í raun verið sá bíll sem setti Mercedes-Benz endanlega á kortið sem einn vinsælasti leigubíll í Evrópu fyrr og síðar.

Eins og svo oft áður voru þessir bílar notaðir á margvíslegan hátt og það var að sjalfsögðu byggt yfir þessa bíla eins og aðra. Hér gefur að líta sjúkrabíl af gerðinni 230/6 yfirbyggðan í Danmörku fyrir Falck.

Dísilfólksbíll nr. 1.000.000 frá Mercedes-Benz síðan  1949  var  þessi  220D  árgerð  1968,  en 9. Maí 1968 heldu Mercedes-Benz menn einnig uppá það að alls höfðu verið framleiddar tvær miljónir fólksbíla í verksmiðjunni í Sindelfingen síðan 1946.

Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson

Ljósmyndasafn W114 og W115