Lög Mercedes-Benz klúbbs Íslands (15-11-2022)

#1
Lög félagsins

1. gr.
Félagið heitir Mercedes-Benz klúbbur Íslands, skammstafað MBKÍ.
Kennitala 450304-2710.

2. gr.
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

3. gr.
Tilgangur félagsins er:
Að efla samskipti áhugamanna um Mercedes-Benz bifreiðar á Íslandi. Að gæta alhliða hagsmuna eigenda Mercedes-Benz bifreiða í tengslum við aðgengi þeirra að þjónustu, varahlutum og þekkingu.

4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:
Að efla tengsl félagsmanna með því að gera úti vefsetur þar sem félagsmenn geta verið virkir þátttakendur og fylgst með reglulegri starfsemi félagsins. Að efna til félagsfunda, samkoma og hópaksturs nokkrum sinnum á ári þar sem menn geta komið saman og sýnt sig og sína. Að kappkosta að útvega félagsmönnum afslætti á varahlutum og þjónustu. Að safna saman þekkingu um Mercedes-Benz bifreiðar, viðhald þeirra og sögu.

5. gr.
Stofnfélagar voru:
Sveinn Þorsteinsson; Gunnar Már Gunnarsson; Rúnar Sigurjónsson; Örn Sigurðsson og Steingrímur E. Snorrason.

6. gr.
Allir eiga rétt á að ganga í félagið óháð því hvort þeir eru eigendur að Mercedes-Benz bifreið eða ekki. Umsókn skal berast félaginu með rafrænum hætti, s.s. með tölvupósti eða í gegnum vefsíðu félagsins, ásamt greiðslu á árgjaldinu. Þegar árgjaldið hefur verið greitt telst umsækjandi fullgildur félagi
Við úrsögn úr félaginu á félagsmaður ekki rétt á endurgreiðslu árgjalds eða hluta af eignum félagsins.

7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, þ.e. formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og einum meðstjórnanda og einum varamanni.
Þessir fimm aðilar hafa jafnan atkvæðisrétt um þau málefni sem ekki þarf að bera fram til samþykktar á almennum félagsfundi. Varamaður situr stjórnarfundi með fullt málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hefur hann ekki nema vanti aðalstjórnarmann á fundinn.
Stjórnin skiptir með sér verkum vegna daglegrar verka klúbbsins. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda.

7.1. Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum sem skulu kosnir til eins árs í senn. Stjórnin skal skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, einum meðstjórnanda og einum varamanni.

7.2. Stjórnarákvörðun er lögmæt ef hún er samþykkt af meirihluta stjórnar. Ef atkvæði falla 2 á móti 2, verður ígildi formanns 2 atkvæði.

7.3. Fundargerð skal haldin um alla fundi stjórnarinnar þar sem einstakar ákvarðanir eru skráðar, ásamt mætingu stjórnarmanna. Skal ritari félagsins sjá um þessar fundargerðir og einnig skrá í fundargerðabók. Fundargerðir skulu birtar til samþykktar stjórnarmanna inn á spjallsvæði stjórnar félagsins.

7.4. Stjórnarmenn skulu vera orðnir 18 ára og verið félagsmenn í a.m.k. 1 ár. Hægt er að víkja undan þessari reglu ef að 2/3 aðalfundar styðja kosninguna.

7.5. Stjórnin skal hafa rétt til að víkja mönnum úr félaginu ef þeir vinna bersýnilega á móti félaginu eða skaði heild félagsins. Sá sem í hlut á skal hafa rétt til að skýra mál sitt áður en brottvikning á sér stað. Að því loknu skal stjórnin taka ákvörðun um brottvikninguna. Brottvikning skal vera skrifleg.

7.6. Stjórn er heimilt að stofna til nefnda stjórninni til aðstoðar. Jafnframt er stjórnarmönnum heimilt að sitja slíka nefndafundi ef þeir eru ekki í nefndinni. Nefndir sem eru stofnaðar þurfa að skila skýrslum til stjórnar 1 mánuði fyrir auglýstan aðalfund.

8. gr.
Aðalfundur félagsins er haldinn einu sinni á ári. Kosið er í stjórn félagsins á aðalfundi á hverju ári skv. 7.1. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

8.1. Stjórninni er heimilt að tilnefna heiðursfélaga fyrir aðalfund. Meirihluta aðalfundarmanna þarf fyrir samþykki heiðursfélaga.

8.2. Aðalfundur félagsins skal haldin í október ár hvert og skal boðað til hans með minnst þriggja vikna fyrirvara. Ef fundurinn verður haldinn með rafrænum hætti (t.d. með fjarfundakerfi) skal tryggja að atkvæðagreiðsla geti verið leynileg.

8.3. Atkvæðagreiðsla á aðalfundi skal vera leynileg ef meirihluti fundarmanna krefst þess.

8.4. Stjórn félagsins skal boða til aukaaðalfundar ef tveir þriðju hlutar gildra félagsmanna krefjast þess.

9. gr.
Árgjald félagsmanna, og gjalddaga, skal ákveða af stjórn klúbbsins. Félagsmaður telst því aðeins gildur á aðalfundi að hann hafi greitt félagsgjald að fullu eigi síðar en þrem vikum fyrir aðalfund ár hvert.

9.1. Til að skuldbinda félagið þarf undirritun minnst 3/5 stjórnarmanna.

9.2. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald.

9.3. Félagsmenn eru ekki ábyrgir persónulega fyrir skuldum félagsins.

10. gr.
Ákvörðun um slit félags má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi. Tillaga um að leggja félagið niður, skal koma fram í fundarboði. Á þessum fundi skal einnig tekið fyrir hvernig ráðstafa skuli öllum eignum félagsins og það skráð og staðfest. Til samþykktar þarf minnst 4/5 hluta atkvæða.

10.1. Sé samþykkt að leggja félagið niður, skal boða til aukaaðalfundar 7 dögum síðar til að staðfesta niðurstöðuna og þarf til þess 4/5 hluta atkvæða.

11. gr.
Ársreikningur félagsins skal vera tilbúinn fyrir aðalfund ár hvert og lagður fyrir félagsmenn til samþykktar.

12. gr.
Breytingar á lögum félagsins má aðeins gera á aðalfundi félagsins. Til að breytingar á lögum félagsins nái fram að ganga þarf, minnst, atkvæði 2/3 hluta mættra félagsmanna. Auglýsa skal lagabreytingu / hugmyndum að breytingum á lögum að lágmarki viku fyrir aðalfund á vefsíðu klúbbsins.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins 15. nóvember 2022 og öðlast gildi sama dag.


-----------------------------------------------------
Stjórn Mercedes-Benz klúbbs Íslands
Netfang: mbki @ mbclub.is